Keppni í Olísdeild kvenna hefst á næsta fimmtudag og því er vart seinni vænna en að blása til leiks í meistarakeppni HSÍ í dag. Íslands- og deildarmeistarar Fram taka á móti bikarmeisturum Vals í nýju íþróttahúsi Framara í Úlfarsárdal. Viðureignin hefst klukkan 13.30.
Um er að ræða þau tvö lið sem flestir spá hvað bestu gengi í Olísdeildinni á komandi tímabili. Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópum beggja liða frá síðasta keppnistímabili og þar með spennandi að sjá hvaða áhrif breytingar hafa á leik liðanna.
Ekki er öll sagan sögð um dagskrá dagsins með leiknum í Úlfarsárdal. Í Vestmannaeyjum fer fram í dag fyrsti leikur íslensks félagsliðs í Evrópukeppni á tímabilinu. ÍBV tekur á móti ísraelska liðinu Holon HC klukkan 16 í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í fyrstu umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik. Síðari leikur liðanna verður á sama tíma á morgun. Miðasala er á Stubb.
Leikir dagsins
Meistarakeppni HSÍ, kvennaflokkur:
Úlfarsárdalur: Fram – Valur, kl. 13.30 – sýndur á Stöð2sport.
Evrópubikarkeppni karla, 1. umferð, fyrri leikur:
Vestmannaeyjar: ÍBV – Holon HC, kl. 16 – sýndur á ÍBVtv.
Handbolti.is fylgist með báðum leikjum í textalýsingu.