Ekki verður slegið slöku við á handknattleiksvöllum í kvöld þegar fyrsta umferð átta liða úrslita halda áfram með tveimur leikjum, í Kaplakrika og í Vestmannaeyjum.
Ekki er nóg með það heldur hefst umspil Olísdeildar kvenna í kvöld með tveimur viðureignum í undanúrslitum. Umspil Olísdeildar kvenna hefur ævinlega boðið upp á spennu og skemmtun enda mikið í húfi hjá liðunum fjórum sem reyna með sér. Að þessu sinni kljást Afturelding, FH, Grótta og Víkingur. Sigurliðin úr þriggja leikja rimmum undanúrslita leika til úrslita um sæti í Olísdeild kvenna á næstu leiktíð.
Hófst í gær
Átta liða úrslit Olísdeildar karla hófust í gær með tveimur viðureignum. Valur burstaði Fram, 41:23. Afturelding marði sigur á Stjörnunni, 29:28, í háspennuleik.
Kaplakriki
Í úrslitakeppni Olísdeildar karla í kvöld sækja KA-menn deildarmeistara FH heim í Kaplakrika. Flautað verður til leiks klukkan 18. Ekki er vika liðin síðan FH og KA mættust í síðustu umferð Olísdeildar karla í Kaplakrika. FH vann örugglega, 32:22, eftir að KA-menn veittu harða mótspyrnu í fyrri hálfleik.
Vestmannaeyjar
Liðin sem léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn fyrir ári, ÍBV og Haukar, leiða saman kappa sína í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum klukkan 19.40. Liðin enduðu á líku reki í Olísdeildinni í fjórða og fimmta sæti. Á þeim skeikaði tveimur stigum.
Úrslit í leikja liðanna í Olísdeild karla í vetur:
29. nóvember: KA – FH 27:34.
5. apríl: FH – KA 32:22.
22. september: ÍBV – Haukar 30:26.
4. febrúar: Haukar – ÍBV 36:26.
Leikir kvöldsins verða sendir út hjá Handboltapassanum.
Olísdeild karla, 8-liða úrslit, 1. umferð:
Kaplakriki: FH – KA, kl. 18.
Vestmannaeyjar: ÍBV – Haukar, kl. 20.15
– Vinna þarf tvo leiki til að öðlast sæti í undanúrslitum.
Umspil Olísdeildar kvenna, undanúrslit, 1. umferð:
Hetzhöllin: Grótta – Víkingur, kl. 19.30.
Varmá: Afturelding – FH, kl. 20.
– Vinna þarf tvo leiki til að öðlast sæti í undanúrslitum.
Sjá einnig:
Umspil Olís kvenna: leikjadagskrá og úrslit
Umspil Olís karla: leikjadagskrá og úrslit
Olís kvenna: Úrslitakeppni, leikjadagskrá
Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni