Tveir leikir fara fram í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Fyrri viðureignin hefst að Varmá í Mosfellsbæ klukkan 18 þegar Afturelding tekur á móti Val í þriðja leik liðanna. Hvort lið hefur einn vinning í einvíginu sem skammt er á veg komið vegna þátttöku Vals í Evrópubikarkeppni.
Afturelding vann fyrstu viðureignina, 28:25, á heimavelli síðasta vetrardag. Valsmenn svöruðu fyrir sig með stórsigri á heimavelli á fimmtudagskvöld, 39:25. Vinna verður þrjá leiki til þess að komast í úrslit. Leikurinn verður sendur út á handboltapassanum. Auk þess er nóg til af aðgöngumiðum á stubb.is.
Töluverð eftirvænting
Mikil eftirvænting ríkir fyrir oddaleik FH og ÍBV sem hefst í Kaplakrika klukkan 19.40. FH vann tvær fyrstu viðureignirnar. ÍBV svaraði fyrir sig með því að vinna næstu tvær, síðast eftir tvær framlengingar og vítakeppni.
Talsverður hiti hefur verið í síðustu leikjum, ekki síst meðal stuðningsmanna. Hefur m.a. þurft að grípa til þess að vísa áhorfendum á dyr. Menn verða við öllu búnir í Kaplakrika í kvöld. Uppselt er á leikinn. Seldir hafa 2.200 aðgöngumiðar.
Leikur FH og ÍBV verður sendur út í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans.
Leikir dagsins
Úrslitakeppni Olísdeildar karla, undanúrslit:
Varmá: Afturelding – Valur (1:1), kl. 18.
Kaplakriki: FH – ÍBV (2:2), kl. 19.40.
Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni