- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dagur átti stórleik í 12 marka sigri í Drama

Dagur Gautason leikmaður ØIF Arendal. Mynd/Helge Olsen
- Auglýsing -


Akureyringurinn Dagur Gautason átti sannkallaðan stórleik í dag þegar norska liðið ØIF Arendal innsiglaði sér sæti í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla með 12 marka sigri á gríska liðinu Bianco Monte Drama, 36:24, í Drama í Grikklandi.

Dagur var markahæstur leikmanna norska liðsins með 10 mörk. Það sem gerir gott betra er að hann geigaði ekki á einu skoti í leiknum.

Eftir aðeins tveggja marka sigur á heimavelli um síðustu helgi, 37:35, þá gat brugðið til beggja vona hjá ØIF Arendal í síðari leiknum í dag. Tveggja marka forskot getur verið fljótt að renna mönnum úr greipum á útivelli, jafnvel þótt notað sér harpix.

Dagur og félagar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16:12. Þeir settu síðan á fulla ferð, jafnt í vörn sem sókn í síðari hálfleik og unnu stórsigur og samanlagt með 14 marka mun, heima og að heiman.

Auk stórleiks Dags þá munaði einnig mikið um að Kristijan Jurisic markvörður ØIF Arendal var í essinu sínu og varði 17 skot, 41,4%.

Ísak og Viktor unnu fyrir luktum dyrum

Ísak Steinsson var í marki Drammen allan leiktímann gegn ísraelska liðinu Holon Yuvalim HC í Drammen í dag í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar. Ísak varði 8 skot, 26%, í sex marka sigri, 36:29. Af öryggisástæðum var leikið fyrir luktum dyrum í Drammenhallen. Sama verður upp á teningnum á morgun þegar liðin mætast öðru sinni.

Viktor Norberg Pedersen skoraði fimm mörk fyrir Drammenliðið í leiknum.

Ólafur Örn Haraldsson formaður dómaranefndar HSÍ var eftirlitsmaður EHF á leiknum í dag. Hann stendur einnig vaktina á morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -