Dagur Sigurðsson, núverandi landsliðsþjálfari Króatíu í handknattleik karla, var skiljanlega með böggum hildar mánuðum saman eftir að hann að ósekju féll á lyfjaprófi sumarið 2004, rétt fyrir Ólympíuleikana í Aþenu. Niðurstaðan var ekki kunn fyrr en að leikunum loknum. Dagur sagði frá þessu máli í fyrsta hluta viðtals við Gunnlaug Jónsson sem birt var á Rás 2 í gær.
Loks fékkst niðurstaða
Dagur bjó við óvissu um niðurstöðuna mánuðum saman meðan hann fór í hvert lyfjaprófið á fætur öðru meðan hann var leikmaður Bregenz í Austurríki. Undir lok ársins 2004 fékkst loksins niðurstaða í málið. Hún var sú að Dagur, af náttúrulegum völdum, væri hluti af einu prósenti karlmanna sem væri með óvenju mikið magn af karlhormónum. Flökkt væri á hormónastarfseminni sem skýrði mismun á milli lyfjaprófa.
Dagur var kallaður í lyfjapróf hér heima fyrir Ólympíuleikana 2004 eins og aðrir þátttakendur Íslands á leikunum. Hann fór aftur í lyfjapróf á leikunum en handahófspróf voru tekin af keppendum á leikunum eins og á öðrum stórmótum í handknattleik.
Fékk símtal frá Lyfjanefnd
Eftir leikana var Dagur kominn heim til sín í Bregenz þegar hann fékk símtal frá Lyfjanefnd ÍSÍ þar sem honum var greint frá að hann hefði fallið á prófinu fyrir leikana. Dagur segir að sér hafi þótt það einkennilegt þar sem hann hafi farið í lyfjapróf á leikunum sem ekkert óeðlilegt hafi komið fram í. Auk þess hafi hann ekki neytt ólöglegra lyfja til að bæta frammistöðu sína.
Passaði sig mjög vel
„Ég hefði passað mig mjög vel og vissi að þetta gæti ekki verið. En þeir sögðu að svona væri nú samt staðan og að ég þyrfti að gefa B-sýni og það yrði fylgst með mér í hálft ár,“ segir Dagur, og sú varð nákvæmlega raunin.
Hluti af einu prósenti
Dagur var reglulega tekinn í lyfjapróf af eftirlitsfólki frá Sviss sem kom til Bregenz. „Ég var á leiðinni á jólaskemmtun þegar ég fékk símtal um að það væri komið úr öllum prófum og að niðurstaðan í Svíþjóð væri sú að ég væri hluti af þessu eina prósenti karlmanna sem væri með flöktandi testósteron,“ sagði Dagur sem loksins gat andað léttar eftir marga mánuði í óvissu.
„Ég svo sem vissi þetta en það var óþægilegt að hafa þetta hangandi yfir sér í hálft ár,“ segir Dagur í viðtali við Gunnlaug Jónsson á Rás 2.


