- Auglýsing -
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla, segir að hann mun gera nokkrar breytingar á liði sínu fyrir viðureignina við heimsmeistara Dani á morgun í milliriðlakeppni HM í handknattelik.
Í viðtali við danska fjölmiðla í gær eftir leik Japan og Argentínu, segist Dagur reikna með að kalla inn menn í liðið sem hafa verið varamenn. Þess í stað ætli hann að hvíla einhverja af þeim sem mest hefur mætt á.
Dagur segist ætla að leggja meira púður í lokaleik milliriðlakeppninnar sem verður á móti Barein sem er undir stjórn Halldórs Jóhanns Sigfússonar. Sú viðureign skipti sig meira máli, enda reiknar Dagur ekki með að geta lagt stein í götu heimsmeistaranna sem hafa verið á mikilli siglingu á HM til þessa.
Japanska landsliðið hefur þegar náð sínum besta árangri á HM frá upphafi. Það komst í annað sinn í sögunni á annað stig HM og í fyrsta skipti með stig í farteskinu. Barein fór stigalaust áfram í milliriðil. Íslendingaslagurinn á milli Japans og Barein verður á mánudaginn í lokaumferð milliriðlakeppni HM.
- Auglýsing -