Dagur Sigurðsson varð í dag fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna á heimsmeistaramóti karla í handknattleik. Dagur, sem hefur verið landsliðsþjálfari Króata í tæpa 11 mánuði, vann silfurverðlaun með landsliðinu sínu í dag.
Þar með hefur Dagur unnið til verðlauna sem þjálfari á öllum þremur stórmótunum landsliða. Árið 2016 varð þýska landsliðið Evrópumeistari undir stjórn Dags. Síðar sama ár fékk þýska landsliðið bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Rio Janeiro í Brasilíu.
Þórir var fyrstur
Aðeins einn íslenskur þjálfari hefur áður unnið til verðlauna sem þjálfari á heimsmeistaramóti, Þórir Hergeirsson. Hann vann bronsverðalaun í fyrstu atlögu eftir að hann tók við þjálfun norska kvennalandsliðsins í upphafi árs 2009. Síðar bættust fimm verðlaunapeningar í safn Þóris á heimsmeistaramótum með norska landsliðinu.