Króatíska landsliðið í handknattleik karla, undir stjórn Dags Sigurðssonar, tryggði sér farseðil á Ólympíuleikana í sumar með öruggum sigri á þýska landsliðinu, sem Alfreð Gíslason þjálfar, 33:30, í ZAG Arena í Hannover í dag. Króatar hafa þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í riðlinum. Þjóðverjar verða að öllum líkindum að vinna Austurríkismenn í lokaumferðinni á morgun til þess að fylgja Króötum á Ólympíuleikana í París.
Króatar voru með yfirhöndina frá upphafi. Þeir byrjuðu leikinn af miklum krafi, skoruðu fimm af fyrstu sex mörkum leiksins. Þýska liðið átti í mestu erfiðleikum í sóknarleiknum gegn öflugri 6/0 vörn Króata. Sex marka munur varð að loknum fyrri hálfleik, 16:10, Króatíu í vil.
Þýska liðið lék betur í síðari hálfleik, ekki síst í sókninni. Forskotið var hinsvegar erfitt að vinna upp því Þjóðverjum gekk illa að halda aftur af sóknarmönnum króatíska liðsins þar sem fáir léku betur en Luka Cindric sem sprengdi upp þýsku vörnina hvað eftir annað.
Vonarglæta varð til hjá Þjóðverjum um miðjan síðari hálfleik þegar þeim tókst að minnka muninn í tvö mörk, 23:21. Í kjölfarið unnu þeir boltann gátu minnkað muninn í eitt mark. Ekki gekk rófan og í staðinn skoruðu Króatar heppnismark hinum megin, 24:21. Eftir það voru Króatar aldrei líklegir til þess að gefa þýska liðinu annað færi á sér.
Ivan Martinović var frábær í leiknum, eins og gegn Austurríki á fimmtudaginn. Hann skoraði átta mörk. Domagoj Duvnjak og Mario Šoštarić skoruðu fimm mörk hvor.
Renars Uscins bar uppi skotógnina í sóknarleik Þjóðverja og skoraði átta mörk í 10 skotum. Línumaðurinn Jannik Kohlbacher skoraði fimm mörk.
Spánverjar tryggðu sér sæti á leikana í gær og Króatar í dag. Þar með eru fjögur sæti enn laus í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum.
Forkeppni ÓL24, karlar: Leikir, úrslit, staðan
Hér fyrir neðan er streymi frá leiknum.