Japanska landsliðið, undir stjórn Dags Sigurðssonar, hafði betur gegn Aroni Kristjánssyni og liðsmönnum Barein í hörkuleik í B-riðli forkeppni Ólympíuleikanna í handknattleik í Doha í Katar í dag, 27:26. Barein var með tveggja marka forskot í hálfleik, 16:14.
Þar með hefndi japanska landsliðið fyrir tap fyrir Barein í undanúrslitaleik í handknattleikskeppni Asíuleikanna snemma í þessum mánuði, 30:28.
Japan hefur þar með fjögur stig í riðlinum eftir tvær umferðir. Barein og Íran hafa tvö stig hvort.
Frí verður á keppni á morgun en þráðurinn tekinn upp á laugardaginn. Þá leikur Japan við Kúveit og landslið Sádi Arabíu undir stjórn Erlings Richardssonar mætir kínverska landsliðinu. Barein situr yfir á laugardaginn vegna þess að fimm lið eru í B-riðli. Þar af leiðandi situr eitt lið yfir í hverri umferð.
Sádi Arabar eru í sex liða A-riðli. Þeir töpuðu í morgun fyrir Suður Kóreu, 29:27, eins og sagt var frá fyrr í dag.