Króatískir fjölmiðlar fara nú mikinn vegna ósættis við skipulag Evrópumóts karla sem lýkur um helgina í Jyske Bank Boxen í Herning. Gol.hr greinir frá því að Dagur Sigurðsson þjálfari sé það ósáttur að hann hyggist sniðganga fyrirhugaðan blaðamannafund á laugardag fyrir úrslitaleik og leikinn um bronsverðlaun mótsins á sunnudag.
Á miðlinum eru birtar myndir úr liðsrútu Króatíu, sem þarf að aka í fimm klukkutíma frá Malmö til Herning. Þar sést að minnsta kosti einn leikmaður liðsins sofandi á gólfi rútunnar.
Einnig gætir mikillar óánægju með að króatíski hópurinn þurfi að gista í Silkeborg í nótt, sem er í 40 kílómetra fjarlægð frá Herning.
Með öllu óásættanlegt
Sportske novosti er enn ósáttari við Dani og lætur blaðamaðurinn Drazen Pinevic þá heyra það.
„Það er er með öllu óásættanlegt að fara fram með þessum hætti á svona stóru móti og þá sérstaklega undir lok þess. Danirnir hjá EHF eru greinilega að gera það sem hentar þeim best.
Það þarf ekkert að ræða um keppnishöllina sem slíka en Herning er ekki nálægt neinu. Af hverju er ekki frekar notast við Royal Arena í Kaupmannahöfn fyrir úrslitahelgina þegar Kaupmannahöfn er borg sem býður upp á bókstaflega allt?“ skrifar Pinevic.



