Dagur Gautason fer frá Montpellier í Frakklandi þegar keppnistímabilinu lýkur. Hann staðfesti þetta við handbolta.is í gær. Dagur samdi við franska stórliðið til skamms tíma í byrjun febrúar eftir að hornamaður Montpellier, Lucas Pellas, sleit hásin.
„Þar sem að félagið var búið að semja við hornamann PSG áður en að ég kom, auk þess sem að Pellas er ennþá samningsbundinn í meiðslunum, er ljóst að það er ekki nóg fjármagn til þess að hafa þrjá hornamenn næsta vetur þrátt fyrir áhuga beggja aðila um að halda samstarfinu áfram. Ég ræ því á önnur mið eftir tímabilið,“ sagði Dagur við handbolta.is.
Dagur sagði ennfremur að ekkert tilboð væri í hendi. Hann væri að líta í kringum sig þessar vikurnar. Nóg væri hinsvegar að gera hjá sér með Montpellier-liðinu.
Fjórir leikir eru eftir í frönsku 1. deildinni auk þess um aðra helgi tekur Montpellier þátt í úrslitahelgi Evrópudeildarinnar sem fram fer í Hamborg.
Áður en Dagur gekk til liðs við Montpellier hafði hann leikið með ØIF Arendal í norsku úrvalsdeildinni í hálft annað ár við góðan orðstír.