Dagur Gautason og nýir samherjar hans í ØIF Arendal gerðu sér lítið fyrir og kræktu í annað stigið í heimsókn sinni til stórliðsins og ríkjandi Noregsmeistara Kolstad í Þrándheimi í upphafsleik norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla í dag, 33:33, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik, 16:14. Arendal liðið skoraði þrjú síðustu mörk leiksins, þar af sá Dagur um að jafna metin í lokin.
Dagur tryggði ØIF Arendal annað stigið í leiknum þegar hann jafnaði metin úr vítakasti þegar leiktíminn var úti. Akureyringurinn nýtt öll sín skot í leiknum til að skora, ekki eitt missti marks.
Dagur, sem kom til félagsins í sumar frá KA, var markahæstur hjá ØIF Arendal með sex mörk, þar af tvö úr vítaköstum. Ljóst er að hann fetar inn á nýja braut sem vítaskytta hjá norska úrvalsdeildarliðinu. Sondre Gjerdalen var næst markahæstur hjá Arendal með fimm mörk.
Annar Akureyringur og fyrrverandi Þórsari Hafþór Már Vignisson, skoraði eitt mark fyrir Arendal.
Sigvaldi Björn skoraði níu
Sigvaldi Björn Guðjónsson var næst markahæstur hjá Kolstad með níu mörk, þar af eitt úr vítakasti. Magnus Abelvik Rød var markahæstur með 10 mörk. Stórstjarnan Sander Sagosen lét lítið fyrir sér fara við markaskorun. Hann lét eitt mark nægja en átti þess í stað átta stoðsendingar.
Úrslitin eru vafalítið vonbrigði fyrir Kolstadliðið sem hefur verið talsvert í fréttum síðustu vikur vegna fjárhagserfiðleika. Ekki síst hljóta leikmenn að vera vonsviknir að tapa niður þriggja marka forskot í lokin á heimavelli.
Tengdar fréttir: