Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Króatíu stýrði liðinu til sigurs í vináttulandsleik við Sviss í Gümligen, 29:26. Þetta var fyrri viðureign liðanna en sú síðari verður háð á laugardaginn í Kriens.
Sviss var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 13:12.
Dagur var án Zvonimir Srna, Luka Cindric, Tin Lucin og David Mandic í leiknum. Þeir eru allir fjarverandi vegna meiðsla.
Spænskur sigur í Linköping
Spánverjar unnu sannfærandi sigur á sænska landsliðinu, 34:30, í vináttuleik í Saab Arena í Linköping í Svíþjóð í kvöld. Spánn hafði fjögurra marka forskot, 19:15, að loknum fyrri hálfleik.
Landslið Svíþjóðar og Spánar reyna aftur með sér í Eskilstuna á laugardaginn.
Loks unnu Egyptar landslið Portúgal, 32:28, í vináttuleik í Portúgal í kvöld.




