Volda og Fjellhammer, sem hafa á að skipa íslenskum handknattleikskonum, eru í tveimur efstu sætum næst efstu deildar norska handknattleiksins. Volda er í efsta sæti með 35 stig eftir 19 leiki eftir stórsigur á Nordstrand, 39:18, á útivelli í gær. Fjellhammer er tveimur stigum á eftir Volda í öðru sæti en liðið vann Levanger, 31:28, í Fjellhammer Arena í gær.
Dana Björg Guðmundsdóttir landsliðskona fór á kostum með Volda í sigurleiknum á Nordstrand, 39:18, í Ósló. Hún skoraði 8 mörk í 10 skotum. Ekkert markanna skoraði Dana Björg úr vítakasti en fjögur skoraði hún eftir hraðaupphlaup.
Birta Rún Grétarsdóttir skoraði tvö mörk í sigri Fjellhammer á heimavelli. Fjellhammer náði sjö marka forskoti fyrir lok fyrri hálfleiks og stóðst álagið af áhlaupi Levanger í síðari hálfleik.
Birta Rún, sem hefur verið í Noregi í nokkur ár, er á sínu öðru keppnistímabili með Fjellhammer en áður var hún með Óslóarliðinu Oppsal. Áður en Birta Rún fór til Noregs lék hún með HK í Kópavogi.
- Stöðuna í tveimur efstu deildum norska handknattleiksins í karla- og kvennaflokki er að finna hér ásamt stöðunum í fleiri deildum evrópsks handknattleiks.