Dana Björg Guðmundsdóttir landsliðskona í handknattleik og samherjar hennar í Volda halda efsta sæti næst efstu deildar norska handknattleiksins þegar styttist mjög í að keppni ljúki í deildinni.
Volda vann Glassverket, 36:25, á heimavelli í dag og hefur þar með 43 stig eftir 24 leiki. Fjellhammer er tveimur stigum á eftir og á leik til góða auk þess að standa höllum fæti gagnvart Volda í innbyrðis viðureignum. Efsta lið deildarinnar fer rakleitt upp í úrvalsdeildina en það sem hafnar í öðru sæti tekur þátt í umspili.
Alls leikur hvert lið deildarinnar 26 sinnum. Volda á þar með tvo leiki eftir en Fjellhammer þrjá. Aker er skammt á eftir með 40 stig að loknum 23 leikjum.
Dana Björg skoraði sex mörk í átta skotum á heimavelli í dag og var þriðja markahæst í sínu liði. Nora Jakobsson Van Stam var markahæst með níu mörk og brást ekki bogalistin.