Dana Björg Guðmundsdóttir og samherjar í Volda töpuðu oddaleiknum við Haslum um sæti í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag, 26:22, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 12:11. Leikið var á heimavelli Haslum sem varði sæti sitt í úrvalsdeildinni af miklum þunga í dag. Volda leikur þar með áfram í næst efstu deild.
Dana Björg skoraði eitt mark í leiknum úr fimm skotum.
Volda vann fyrstu viðureignina við Haslum fyrir viku, 28:25, en tapaði á heimavelli á sunnudaginn, 27:26, eftir framlengingu.
Í dag var Haslum með frumkvæðið lengst af og aldrei var meira en eins til tveggja marka munur. Á síðustu mínútum leiksins lögðu leikmenn Volda allt í sölurnar til þess að jafna metin en höfðu ekki erindi sem erfiði. Leikmenn Haslum skoruðu þrjú síðustu mörkin.
Samningur Dönu Bjargar við Volda rennur út í lok leiktíðar. Eftir því sem handbolti.is kemst næst er óvíst hvort hún verður áfram hjá félaginu eða sækir inn á önnur mið.
Aðeins eitt lið fór upp
Romerike Ravens tók einnig þátt í umspilinu og lagði Aker í tveimur leikjum. Þar með tókst báðum úrvalsdeildarliðunum að verja sæti sitt í deildinni í umspilinu og aðeins eitt lið féll, Vipers sem varð gjaldþrota í upphafi ársins.
Fjellhammer, sem Birta Rún Grétarsdóttir leikur með vann næsta efstu deild og fór rakleitt upp í úrvalsdeild í stað Vipers.