Daníel Freyr Andrésson, handknattleiksmarkvörður sem lék með Val í fyrra og í hitteðfyrra, hóf keppni í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag með Guif Eskilstuna, og það með ekki neinni smá frammistöðu.
Daníel Freyr stóð í marki Guif allan leikinn, ef undan er skilið eitt vítakast, og varði 16 skot, og var með 48,4% hlutfallsmarkvörslu þegar Guif vann IFK Ystads á útivelli, 24:20. Óhætt er að segja að Daníel Freyr hafi farið á kostum í markinu og verið skerið sem heimamenn steyttu á að þessu sinni. Hann skellti hreinlega í lás í markinu á köflum í leiknum.
Aron Dagur Pálsson og samherjum hans í Alingsås gekk ekki eins vel og Daníel Frey og samherjum. Alingsås steinlá fyrir Skövde, 31:20. Leikið var í Skövde. Aron Dagur skoraði þrjú mörk. Hann er nú að hefja sitt annað keppnistímabil með liðinu.
Keppni í sænsku úrvalsdeildinni í hófst í gær. Íslenskir handknattleiksmenn voru ekki lengi að stimpla sig inn.