Níundi leikmaður íslenska landsliðsins, Daníel Þór Ingason, hefur greinst með covid smit. HSÍ greindi frá þessu fyrir nokkrum mínútum. Smitið greindist hjá Daníel Þór í hraðprófi sem tekið var í hádeginu í dag. Hann var einn þeirra sem var neikvæður í PCR prófi sem tekið var í gærkvöld.
Þar með hafa tíu úr íslenska hópnum, um þriðjungur þegar leikmenn, þjálfarar og starfsmenn eru teknir saman, greinst með covid á innan við viku.
Fréttatilkynning HSÍ:
„Í hraðprófi sem tekið var í hádeginu í dag greindist Daníel Þór Ingason með jákvætt próf og er beðið eftir niðurstöðu PCR prófs.
PCR próf liðsins í gærkvöldi voru öll neikvæð er frá eru taldir þeir 9 sem voru í einangrun.
Níu leikmenn og einn starfsmaður liðsins hafa þá greinst síðustu daga og eru í einangrun.“
Tveir leikmenn komu frá Íslandi í nótt til móts við íslenska landsliðið, Darri Aronsson og Þráinn Orri Jónsson.