Margt bendir til þess að Daníel Þór Ingason leiki ekki með ÍBV næstu vikurnar eftir að hann slasaðist í gær við upptökur á efni fyrir samfélagsmiðla Handknattleikssambands Íslands hvar undirbúningur virðist hafa verið í skötulíki. Frá atvikinu og afleiðingum þess segir Handkastið frá í kvöld. Daníel Þór Ingasyni var sárt saknað í dag þegar ÍBV tapaði fyrir Haukum í síðasta leik 6. umferðar Olísdeildar karla.
Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV segir í viðtali við mbl.is að fjarvera Daníels Þórs vera í boði HSÍ reiknar með að sambandið taki fulla ábyrgð á.
Átti að stökkva yfir samherja
Við upptöku myndskeiðs fyrir samfélagsmiðla HSÍ mun Daníel Þór hafa átt að stökkva yfir samherja sína. Upptökum og leiðbeiningum virðist hafa verið stórlega ábótavant vegna þess að Daníel Þór vissi ekki hvernig félagarnir myndu bregðast við þegar stokkið var yfir þá. Fór svo að Daníel Þór lenti harkalega á hægri öxl á hörðu gólfi.
Handkastið hefur eftir Daníel Þór að hann hafi til lánsins sloppið við axlarbrot en sé hugsanlega með beinmar. Nánari greiningar mun vera beðið.
Málið snýr að HSÍ
„Við þurfum bara að sjá hvað kemur út úr niðurstöðum, HSÍ hlýtur að sjá til þess að hann fái rétta meðhöndlun og sem fyrst,“ segir Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV í viðtali við mbl.is eftir leikinn við Hauka í dag. Skiljanlega var hljóðið þungt í Erlingi vegna atviksins við upptökurnar og meiðslanna enda hefur Daníel Þór verið lykilmaður hjá ÍBV á leiktíðinni eftir að hann flutti heim frá Þýskalandi í sumar.