- Auglýsing -
- Auglýsing -

Danir fletta ofan af hagræðingu úrslita í handbolta

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

TV2 í Danmörku frumsýnir í kvöld fyrri hluta heimildarmyndar sem menn á vegum stöðvarinnar hafa unnið að í fjögur ár þar sem sjónum er beint að hagræðingu úrslita í alþjóðlegum handknattleik. Sagt er að í þáttunum sé flett ofan af ýmsu sem legið hefur í þagnargildi. Myndin nefnist Grunsamlegur leikur í íslenskri þýðingu Ingva Þórs Sæmundssonar blaðamanns Vísis en á dönsku nefnast þættirnir Mistænkeligt spil.

Í þáttunum beinast spjótin m.a. að Dragan Nachevski formanni dómaranefnda EHF sem vikið var til hliðar í maí eftir að höfundar þáttanna höfðu sent stjórnendum EHF upplýsingar sem bentu til þess að Nachevski hefði óhreint mjöl í pokahorninu.

Segist vera saklaus

Rætt er við dómara sem fullyrðir að Nachevski hafi pressað á sig og þannig reynt að hafa áhrif á úrslit leikja. Nachevski neitar sök og segist vera saklaus sem hvítvoðungur. Dómarinn, sem kemur ekki fram undir nafni, segist ekki hafa komið máli sínu til stjórnar EHF vegna þess að hann reiknaði að því yrði stungið undir stól.

Dan Philipsen fréttamaður á TV2 segir í pistli í morgun að forseti EHF, Michael Wiederer, hafi vitað um málin um árabil en ekkert aðhafst.

Gjorgij Nachevski dómari hefur dregið sig í hlé eins og faðir hans. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Þættirnir tveir eru framhald af ítarlegri umfjöllun TV2 í byrjun janúar um hagræðingu úrslita og veðmálabraski í kappleikjum. Þá bárust böndin m.a. að starfandi dómurum, s.s. syni Dragans, Gjorgij Nachevski.

Síðari hlutinn verður á dagskrá eftir viku. Ekki mun vera mögulegt að sjá þáttinn í kvöld hér á landi hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -