- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EHF sendir helsta framámann dómaramála í ótímabundið leyfi

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Framkvæmdastjórn Handknattleikssambands Evrópu hefur leyst Norður Makedóníumanninn Dragan Nachevski frá starfskyldum sínum innan sambandsins um óákveðinn tíma. Hann liggur undir grun um að hafa a.m.k. gefið höggstað á sér í tengslum við umræður um veðmálabrask eða meintri hagræðingu úrslita. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá EHF í morgun.

Nachevski hefur um árabil verið einn valdamesti maðurinn, ef ekki sá valdamesti, í dómaramálum í handknattleik í Evrópu. Einnig hefur hann haft ítök innan dómaranefndar Alþjóða handknattleikssambandsins og verið eftirlitsmaður á mörgum heimsmeistaramótum, auk Evrópumóta og úrslitaleikja Meistaradeildarinnar svo fátt eitt sé talið upp.

Hluti rannsóknar

EHF segir í yfirlýsingu sinni að spjótin beinist að Nachevski í málum sem unnin hafa verið í tengslum við rannsókn TV2 í Danmörku á meintum hagræðingum úrslita og veðmálasvindl.

Mun efnið sem EHF fékk í hendur frá TV2 vera hluti af því sem fiskast hefur í rannsókn á málinu.

Ekkert umburðalyndi

EHF segir í yfirlýsingu sinni að Nachevski neiti að hafa tekið þátt í nokkru misjöfnu. Innan EHF er hinsvegar ekki til vottur af umburðalyndi þegar kemur að hagræðingu úrslita eða veðmálabraski af nokkru tagi. Meðan málið er í rannsókn verði Nachevski fjarri öllum störfum fyrir EHF sem heitir að upplýsa málið og að engu verði sópað undir teppið.

Dragan Nachevski var árum saman dómari á sínum yngri árum og dæmdi á mörgum stórmótum, m.a. úrslitaleiki. Eftir að hafa lagt flautuna á hilluna tók hann að sér stjórnunarstörf á vegum EHF og hefur stundum þótt frekur til fjörsins. Sonur hans, Gjorgji Nachevski, hefur orðið einn helsti handknattleiksdómarinn í evrópskum handknattleik á síðasta áratug.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -