Danir voru fyrstir til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumóts karla í handknattleik. Þeir lögðu Þjóðverja örugglega, 31:26, í síðasta leik næstsíðustu umferðar milliriðla eitt í Jyske Bank Boxen í Herning.
Danska liðið hefur sex stig eins og Þýskaland í efsta sæti og mætir Noregi á miðvikudag. Þjóðverjar eiga eftir viðureign við Frakka og þurfa a.m.k. annað stigið úr leiknum til þess að fylgja danska landsliðinu eftir í undanúrslit. Frakkar verða að vinna leikinn til þess að slá Þjóðverja út og elta danska landsliðið í undanúrslitum. Frakkar töpuðu fyrr í kvöld óvænt fyrir Spáni, 36:32.
Wolff á bekknum í 50 mínútur
Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands kom flestum á óvart með því að láta David Späth standa í marki þýska landsliðsins fyrstu 50 mínútur leiksins í kvöld í stað hins þrautreynda Andreas Wolff sem átti stórleik gegn Noregi á laugardaginn.

Handball-World hefur eftir Alfreð að ástæða þessa sé sú að gefa Wolff tækifæri til þess að hvíla sig eftir átökin upp á síðkastið. Vafalaust á eftir að verða fjaðrafok í þýskum fjölmiðlum vegna þessarar ákvörðunar sem varð mönnum ekki ljós fyrr en rétt áður en flautað var til leiks.
Innsiglað í síðari hálfleik
Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku Danir völdin í leiknum snemma í síðari hálfleik þegar þýska liðið var einum til tveimur mönnum færri á kafla. Danska liðið lék sinn leifrandi hraða handknattleik með Simon Pytlick og Mathias Gidsel í aðalhlutverkum. Þeir skoruðu átta mörk hvor og Gidsel átti einnig sjö stoðsendingar.
Renārs Uščins skoraði sex mörk fyrir þýska liðið og þeir Julian Köster og Marko Gregic fjögur mörk hvor.

