Danska handknattleikssambandið hagnaðist á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik sem fram fór frá lok nóvember og fram yfir miðjan desember á síðasta ári. Danir voru gestgjafar mótsins ásamt Svíum og Norðmönnum. Tveimur síðarnefndu þjóðunum vegnaði ekki eins vel utan vallar og Dönum.
Sænska handknattleikssambandið kom út á sléttu en Norðmenn töpuðu um jafnvirði 12 milljónum íslenskra króna á mótahaldinu sem fram fór í Stafangri og Þrándheimi. Engu að síður var aðsókn góð á leikina í Noregi.
Hagnaður danska handknattleikssambandsins liggur á milli fjórum og fimm milljónum danskra króna, jafnvirði 80 til 100 milljóna íslenska króna eftir því fram kemur í frétt TV2. Um helmingur keppninnar fór fram í Danmörku, þar á meðal úrslitahelgin en einnig keppnin um forsetabikarinn sem íslenska landsliðið vann.
Hagnast alltaf
Mótahald stórmóta í handknattleik kvenna og karla skilar danska handknattleikssambandinu nær undantekningalaust góðum afgangi. Skýrist það m.a. af stuðningi frá sveitarfélögum keppnisstaða, sem fella niður leigugjöld íþróttamannvirkja og ýmissri aðstöðu. Sveitarfélögin telja sig ná inn tekjum á móti af þeim sem sækja mótin.
Þessu mun vera öðruvísi farið í Noregi og að einhverju leyti í Svíþjóð.
Fer í uppeldisstarf
Danska handknattleikssambandið hefur lengi nýtt stóran hluta hagnaðar af mótahaldi til þess að styðja uppeldisstarf handknattleiksfélaga víða um land.
Danir verða gestgjafar HM karla 2025 ásamt Norðmönnum og Króötum. EM kvenna 2026 fer fram í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Til stóð að mótið yrði haldið í Rússlandi en frá því var horfið vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Hrepptu frændþjóðirnar þar með hnossið.