Danir sópuðu upp öllum viðurkenningum í vali Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, á leikmönnum og þjálfurum ársins 2021. IHF greindi frá niðurstöðum í kjörinu í morgun. Óhætt er að segja að frændur okkar séu í sjöunda himni enda löngum verið hrifnir af því að velta sér upp úr því hvort hinn eða þessi leikmaðurinn sé „verdens bedste“
Dönsku landsliðsmarkverðirnir Sandra Toft og Niklas Landin urðu hlutskörpust í kjöri á handknattleikskarli og konu ársins. Landsliðsþjálfarar karla og kvenna Nikolaj Jacobsen og Jesper Jensen voru kjörnir þjálfarar ársins.
Toft er fyrsta danska handknattleikskonan til þess að vera valin handknattleikskona ársins hjá IHF síðan Anja Andersen hreppti hnossið 1997. Um leið er hún fyrsti markvörðurinn sem valinn er síðan Cecilie Leganger frá Noregi hlaut nafnbótinu árið 2001.
Toft stóð sig einstaklega vel með danska landsliðinu á HM á Spáni og var með 43% hlutfallsmarkvörslu á mótinu en danska landsliðið hlaut bronsverðlaun. Einnig var Toft áberandi í leik franska meistaraliðsins Brest sem komst í úrslit í Meistaradeildinni. Toft var með 39% hlutfallsmarkvörslu í frönsku 1. deildinni á síðasta tímabili.
Landin varð einnig hlutskarpastur í vali IHF fyrir árið 2019. Í netkosningu að þessu sinni varð hann lítillega fyrir ofan Svíann Jim Goddfridsson. Landin vann gull með danska landsliðinu á HM á síðasta ári og silfur á Ólympíuleikunum í Tókýó svo fátt eitt sé nefnt.