- Auglýsing -
- Auglýsing -

Danir kjöldrógu Ungverja

Magnús Saugstrup fagnar marki í gegn Ungverjum í dag. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Heimsmeistarar Danmerkur í handknattleik karla eru komnir í undanúrslit á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla eftir að hafa rótburstað Ungverja með 17 marka mun, 40:23, í átta liða úrslitum í Stokkhólmi í kvöld. Danir mæta Spánverjum í undanúrslitum í Gdansk á föstudaginn. Spánn vann Noreg, 35:34, í tvíframlengdum háspennuleik í Gdansk.

Með sigrinum settu Danir met. Þeir hafa unnið 26 leiki í röð í lokakeppni HM og bættu með franska landsliðsins sem vann 25 leiki í röð frá 2015 til 2017. Nicolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Dana hefur aldrei tapað leik á HM en hann er nú að stýra Dönum á þriðja heimsmeistaramótinu í röð.

Danir léku sér eins og köttur að mús í viðureign sinni við Ungverja. Fljótlega í fyrri hálfleik var ljóst að ungverska liðið var ekki líklegt til þess að standast heimsmeisturunum snúning. Niklas Landin varði allt hvað af tók í danska markinu og síðan buldi hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru á ungverska markinu.

Emil Jakobsen kunnu vel við sig og skoraði sjö mörk í fyrri hálfleik, flest eftir hraðaupphlap. Í hálfleik var munurinn níu mörk, 21:12, þrátt fyrir að Chema Rodríguez þjálfari Ungverja tæki tvisvar sinnum leikhlé. Þau skiluðu engum árangri.


Fljótlega í síðari hálfleik var forskot Dana komið í 15 mörk. Upp úr því fór Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Dana að kalla betri leikmenn liðsins af leikvelli til þess að leyfa “minni spámönnum” að spreyta sig.


Ungversku leikmennirnir virtust sáttir með að hafa náð inn í átta liða úrslit og lögðu fljótlega niður vopnin eftir að Danir sýndu mátt sinn og megin.

Þetta er stærsta tap ungversks landsliðs á heimsmeistaramóti frá upphafi.

Mörk Danmerkur: Mathias Gidsel 9, Simon Pytlick 8, Niclas Vest Kirkeløkke 5, Emil Jakobsen 5, Magnus Saugstrup Nielsen 4, Mikkel Hansen 4, Jacob Holm 2, Lukas Jørgensen 2, Magnus Landin Jacobsen 1.
Mörk Ungverjalands: Mate Lekai 6, Richard Bodo 6, Bendeguz Boka 3, Miklos Rosta 3, Gabor Ancsin 2, Pedro Rodriguez Alvarez 2, Zoltan Szita 1.

HM 2023 – Dagskrá, 8-liða, undanúrslit og úrslit

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -