Danir, sem eru einstaklega þefvísir, þykjast finna lyktina af sæti í átta liða úrslitum eftir afar öruggan sigur á Senegal, 40:26, í fyrstu umferð milliriðils eitt í Rotterdam í kvöld. Sigurinn var afar öruggur eins og úrslitin gefa til kynna. Staðan í hálfleik var 20:11, Dönum í vil en lið þeirra var með yfirhöndina frá upphafi til enda.
Nokkuð hefur verið um forföll í danska landsliðinu vegna meiðsla og af öðrum ástæðum. Þess vegna var það Dönum mikill léttir að vinna þennan örugga sigur sem þeir töldu sig eiga vísan, en e.t.v. ekki eins öruggan og raun varð á.
Julie Scaglione var markahæst í danska liðinu með 11 mörk. Kristina Jörgensen var næst með átta mörk. Gnonsiane Niombla skoraði sjö fyrir Senegal sem rekur lestina án stiga í riðlinum.
Fyrr í dag vann japanska landsliðið óvæntan sigur á Sviss, 27:21, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 13:10. Hvort lið hefur nú tvö stig.
Auk þess vann Ungverjaland lið Rúmeníu, 34:29, og gerði svo gott sem út um vonir Rúmena um sæti í átta liða úrslitum


