- Auglýsing -
- Auglýsing -

Danir og Svíar áfram á sigurbraut á EM

Danir fagna 12 marka sigri á Hollendingum. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Eftir tap Norðmanna í fyrstu umferð í milliriðli tvö á Evrópumótinu í handknattleik í dag þá unnu heimsmeistarar Dana og Evrópumeistarar Svía leiki sína sem komu í kjölfarið.

Danir lögðu Hollendinga örugglega, 39:27. Svipaða sögu má segja um Svía. Þeir létu Slóvena ekki vefjast fyrir sér, lokatölur, 28:22.

Svíar og Danir eru þar með komnir með fjögur stig hvor í milliriðli tvö. Slóvenar eru áfram með stigin sín tvö eins og Portúgal sem lagði stigalausa Norðmenn. Hollendingar eru einnig án stiga.

Hollendingum tókst að fylgja Dönum eftir í fyrri hálfleik og rétt framan af síðari hálfleik þegar leiðir skildu. Niklas Landin varði vel í marki Dana meðan hollensku markverðirnir voru slakir.

Eins og áður var Mathias Gidsel markahæstur hjá Dönum. Hann skoraði níu sinnum. Rasmus Lauge, Mikkel Hansen og Simon Pytlick skoruðu fimm sinnum hver. Rutger ten Velde skoraði átta mörk fyrir hollenska landsliðið.

Lucas Pellas fagnar einu af átta mörkum sínum fyrir sænska landsliðið. Mynd/EPA

Palicka gerði út af við Slóvena

Slóvenar byrjuðu betur gegn Svíum í Hamborg. En um leið og Svíar náðu stjórn á varnarleiknum þá féll Slóvenum allur ketill í eld. Til að auka enn á þjáningar Slóvena varði Andreas Palicka allt hvað af tók í sænska markinu. Þegar Glenn Solberg kallaði Palicka af leikvelli var hann með 50% hlutfallsmarkvörslu. Tobias Thulin fékk að láta ljós sitt skína drjúga stund í síðari hálfleik.

Eric Johansson meiddist þegar komið var fram í síðari hálfleik. Vonir standa til að meiðslin séu ekki alvarleg.

Lucas Pellas skoraði átta mörk fyrir Svía. Sebastian Karlsson var næstur með sex mörk.

Aleks Vlah var markahæstur hjá Slóvenum með sjö mörk. Íslandsvinurinn Jure Dolenec var næstur með fjögur mörk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -