Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði sex mörk í tíu skotum þegar lið hennar, BSV Sachsen Zwickau, hélt sigurgöngu sinni áfram í gærkvöld í þýsku 2. deildinni með góðum sigri á Werder Bremen, 27:24, en leikið var í Brimum.
Díana Dögg átti einnig tvær stoðsendingar auk þess sem hún mátti einu sinni bíta í það súra epli að vera vísað af leikvelli í tvær mínútur. Díana og félagar byrjuðu leikinn af krafti og voru með sjö marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 17:10. Þeir ætluðu ekki að brenna sig á sama soðinu og leikmenn Herrenberg, sem eru þriðja sæti einu stigi á eftir BSV Sachsen Zwickau. Herrenberg tapaði stigi gegn Werder Bremen fyrir viku.
Füchse Berlin er efst í deildinni með 31 stig að loknum 18 leikjum. Berlínarliðið lagði HC Rödertal naumlega í gær, 27:26. Díana Dögg og samherjar í Zwickau er í öðru sæti með 29 stig en eiga leik til góða á Berlínarrefina. Herrenberg situr í þriðja sæti með 28 stig. Talsvert er eftir af deildarkeppninni en alls verða leiknar 26 umferðir. Tvö lið færast upp í 1. deild.