Díana Dögg Magnúsdóttir landsliðskona í handknattleik og leikmaður þýska liðsins Blomberg-Lippe er ristarbrotin og verður frá keppni næstu vikurnar. Díana Dögg staðfesti tíðindin við handbolta.is í dag en áður hafði félagið hennar sagt frá þessum ótíðindum.
Díana Dögg ristarbrotnaði í viðureign Blomberg-Lippe og Motherson Mosonmagyarovari KC í Ungverjalandi á sunnudaginn hvar hún átti stórleik, skoraði þrjú mörk og gaf 12 stoðsendingar í tveggja marka sigri, 34:32.
„Ég brotnaði undir lok fyrri hálfleiks en spilaði síðari hálfleikinn til að leggja mitt lóð á vogarskálina til að vinna leikinn. Vonandi verður ekki þörf á aðgerð en sú ákvörðun verður tekin í næstu viku. Ég er að minnsta kosti komin í spelku,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is.
„Brotið liggur ekkert alltof vel en vonandi grær þetta rétt saman og að aðgerð verði óþörf,“ bætti Díana Dögg sem verður nokkrar vikur frá keppni af þessum sökum.