- Auglýsing -
- Auglýsing -

Díana Dögg sögð sú besta á vellinum gegn meisturunum

Díana Dögg Magnúsdóttir leikmaður BSV Zachsen Zwickau. Mynd/BSV Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

Díana Dögg Magnúsdóttir átti annan stórleik á nokkrum dögum með liði sínu BSV Sachsen Zwickau í þýsku 1.deildinni í handknattleik í kvöld þótt það hafi ekki dugað til sigurs gegn meisturum Borussia Dortmund á heimavelli, 34:26.


Díana Dögg var í miklum ham á báðum endum leikvallarins gegn meisturunum og ljóst er að hún hefur stimplað sig af krafti inn í deildina. Díana Dögg skoraði sex mörk, átti þrjár stoðsendingar og skapaði eitt færi til viðbótar við að láta til sín taka í vörninni. Fyrir vikið var Díönu Dögg vísað í tvígang af leikvelli í tvær mínútur í hvort skipti.

Andre Fuhr, þjálfari Dortmund, sagði eftir leikinn að Díana Dögg hafi verið maður vallarins. Hreifst hann mjög að leik hennar.


Leikurinn í dag var klárlega skref í rétta átt að sigri,” sagði Díana Dögg við handbolta.is áðan en lið hennar er enn á stiga eftir þrjá leiki en það kom upp í 1. deild í vor eftir 25 ára fjarveru.


„Við áttum slæmar fimmtán mínútur í fyrri hálfleik. Á þeim kafla lentum við sex mörkum undir,“ sagði Díana ennfremur en Dortmund var með átta marka forskot eftir fyrri hálfleikinn, 20:12. „Við spiluðum svo flottan seinni hálfleik og Dortmund-liðið þurfti vel að hafa fyrir þessum sigri,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir í kvöld.


Dortmund er með sex stig að loknum þremur leikjum en liðið leikur oft deildarleiki sína í miðri viku vegna þátttöku í Meistaradeild Evrópu um helgar.


Næsti leikur BSV Sachsen Zwickau í 1. deildinni verður á móti HSG Bensheim/Auerbach á útivelli annan föstudag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -