Eftir tvo tapleiki í röð komst Blomberg-Lippe, lið landsliðskvennanna Andreu Jacobsen og Díönu Daggar Magnúsdóttur aftur á sigurbraut í gær í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Blomberg-Lippe vann stórsigur á Göppingen á heimavelli, 34:22. Andrea missteig sig á æfingu á dögunum og var ekki með. Eftir því sem næst verður komist er tognunin ekki alvarleg.
Díana Dögg skoraði fjögur mörk, átti sama fjölda stoðsendinga, skapaði fjögur marktækifæri, vann tvö vítaköst, stal boltanum tvisvar og varði eitt skot. Ida Margrethe Hoberg, sem lék með KA/Þór frá áramótum og fram á vor 2023, var markahæst með sjö mörk í átta skotum.
Mikill kraftur var í liði Blomberg-Lippe í leiknum. Var það komið með 11 marka forskot strax eftir 30 mínútna leik, 19:8.
Annar sigur hjá Söndru
Sigurinn færði Blomberg-Lippe upp um eitt sæti, í það fimmta, vegna þess að Bensheim/Auerbach steinlá fyrir Söndru Erlingsdóttur og samherjum í TuS Metzingen, 34:24, á heimavelli. Sandra skoraði eitt mark í leiknum.
Þetta var annar sigur TuS Metzingen í röð og væntanlega er liðið að ná sér á strik eftir þjálfaraskipti í síðasta mánuði.
Staðan: