Dómarar og eftirlitsmenn verða á faraldsfæti við störf utan landsteinanna í janúar auk þess sem þeir slaka ekki á í vinnu við kappleiki hér heima eftir að flautað verður til leiks í Olísdeild kvenna og Grill 66-deild kvenna.
Eins og kom fram í haust þá dæma Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson á Evrópumóti karla í handknattleik sem hefst í Þýskalandi 10. janúar. Ef vel gengur hjá þeim félögum er ekki útilokað að dvöl þeirra í Þýskalandi teygist fram eftir mánuðinum. EM lýkur 28. janúar.
Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson dæma leik ungverska liðisins Motherson Mosonmagyarovari KC og CSM Targu Jiu Rum í 1. umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem fram fer 6. janúar í Ungverjalandi.
Tveir leikir á tveimur dögum
Guðjón L. Sigurðsson slær ekki slöku við í eftirliti á Evrópuleikjum. Hann er skráður í eftirlit tvo daga í röð á Jótlandi í Danmörku á kappleikjum í Meistaradeild Evrópu í kvennaflokki. Hinn 6. janúar verður Guðjón Leifur eftirlitsmaður á viðureign Team Esbjerg og pólska liðsins MKS Zaglebie Lubin. Daginn eftir verður Guðjón kominn til Ikast, á mið Jótlandi, og fylgist með að leikur Ikast Handbold og ungverska liðsins FTC-Rail Cargo fari fram eins og til er ætlast.
Viku síðar verður Ólafur Örn Haraldsson eftirlitsmaður á viðureign Storhamar Handball Elite og Praktiker-Vák frá Ungverjalandi í 2. umferð riðlakeppni Evrópudeildar kvenna. Axel Stefánsson fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna er annar þjálfara Storhamar.