- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dómarar settir út af sakramentinu

Mynd/EPA
- Auglýsing -

Aleksander Pandzic og Ivan Mosorinski, serbneskt dómarapar, hafa verið settir út af sakramentinu hjá Handknattleikssambandi Evrópu. Þeir hafa ítrekað verið grunaðir um að taka þátt í hagræðingu úrslita handboltaleikja.

Serbarnir voru sektaðir í vor um 2.000 evrur hvor, um 300 þúsund krónur, og voru boðaðir til skýrslutöku hjá EHF vegna meintrar þátttöku í hagræðingu úrslita. Þegar þeir mættu ekki til að standa fyrir máli sínu ákvað EHF að tvínóna ekki lengur heldur að svipta þá alþjóðlegum dómararéttindum. Þótti þá alveg ljóst að Serbarnir ættu sér engar málsbætur.

Frá þessu er greint í tilkynningu EHF 26. ágúst og ítrekað í fundargerð frá framkvæmdastjórnarfundi EHF sem fram fór í Austurríki á dögunum.

Pandzic og Mosorinski dæmdu nærri þriðjung leikja á rúmlega eins árs tímabili 2016 og 2017 sem voru skoðaðir sérstaklega með tilliti til hvort hugsanlega hafi verið reynt að hafa áhrif á úrslit leikjanna. Þrátt fyrir grun þá dæmdu Serbarnir allt fram á á síðasta ár. Virtust þeir áfram hafa óhreint mjöl í pokahorninu samkvæmt greiningu Sportradar sem fylgist grannt með meintri hagræðingu úrslita íþróttaleikja.

Sportra­dar er greiningarfyrirtæki sem m.a. hefur unnið með UEFA og fleiri alþjóðlegum íþróttasam­bönd­um að upp­ræt­ingu veðmála­s­vindls sem því miður hefur verið vaxandi vandamál.

Átta dómarapör hafa verið undir smásjá. Meðal þeirra eru Króatarnir Matija Gubica og Bor­is Mi­losevic sem voru á meðal helstu dómara á stórmótum og leikjum á vegum Handknattleikssambands Evrópu um árabil. Þeir hafa ekki verið í sviðsljósinu um nokkurt skeið eftir að nöfn þeirra komu upp á yfirborðið í rannsóknum Sportradar. Sömu sögu er að segja um bræðurna Erdoan Vitaku og Arsim Vitaku dómara frá Kósovó. Nöfn annarra dómara hafa ekki verið birt opinberlega.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -