Kristján Örn Kristjánsson, Donni, mætti til leiks í kvöld á nýjan leik með liði sínu PAUC í frönsku 1. deildinni í handknattleik. Hann var ekki lengi að stimpla sig inn af krafti. Donni skoraði fimm mörk og var markahæsti leikmaður PAUC í fjögurra marka tapi fyrir Saint-Raphaël, 28:24. Gestirnir voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 15:10.
Þetta er fyrsti leikur með Donna fyrir PAUC síðan hann lék með liðinu gegn Val fyrir um mánuði í Orighöllinni í Evrópudeildinni. Um leið var þetta fyrsti leikur Donna með PAUC í frönsku deildinni í rúmlega fimm vikur. Hann hefur verið fjarverandi vegna veikinda.
Donni byrjaði að æfa með liðinu á nýjan leik í vikunni eftir að hann leitað sér lækningar vegna andlegs álags. Samskipti hans við þjálfarann Thierry Anti voru einnig erfið og höfðu slæm áhrif á heilsuna. Anti var látinn taka pokann sinn fyrir hálfum mánuði eftir slakan árangur liðsins.
PAUC er fallið niður í 10. sæti eftir að hafa lítt náð sér á flug síðustu mánuði.