Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar fyrir Skandeborg AGF þegar liðið vann TTH Holstebro, 37:28, á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld er keppni hófst á nýjan leik í dönsku úrvalsdeildinni eftir HM-hlé. Donni og félagar voru með sjö marka forskot í hálfleik, 20:13.
Skandeborg AGF hefur þar með 21 stig eftir 18 leiki í fimmta sæti. Arnór Atlason og liðsmenn hans í TTH Holstebro eru í níunda sæti með 16 stig. Hinn ungi leikmaður, Jón Ísak Halldórsson, gaf eina stoðsendingu fyrir Holstebro-liðið.
Einar Þorsteinn með tvö mörk
Einar Þorsteinn Ólafsson kom talsvert við sögu hjá Fredericia HK þegar liðið vann SønderjyskE, 32:26, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld á heimavelli. Einar Þorsteinn skoraði tvö mörk úr þremur skotum og var einu sinni vikið af leikvelli.
Guðmundur Þórður Guðmundsson var að vanda við stjórnvölin hjá Fredericia HK sem er í þriðja sæti deildarinnar með 25 stig að loknum 18 leikjum.
Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.