Kristján Örn Kristjánsson, Donni, lék afar vel með PAUC í kvöld þegar liðið vann Limoges með sex mark mun, 33:27, á heimavelli í kvöld í frönsku 1.deildinni í handknattleik. PAUC er þar með komið upp að hlið Nantes í annað til þriðja sæti.
Donni skoraði sjö mörk í tíu skotum og var næst markahæstur á eftir franska landsliðsmanninum William Accambray. Hann skoraði níu mörk. Franski landsliðsmarkvörðurinn, Wesley Pardin, er allur að koma til eftir að hafa slitið krossband fyrir 14 mánuðum. Hann fór á kostum í kvöld, ekki síst í síðari hálfleik. Pardin varði 17 skot, 44%.
Grétar Ari var í miklum ham
Grétar Ari Guðjónsson markvörður og samherjar hans í Nice færðust upp um tvö sæti, upp í fjórða sæti í 2. deildinni í Frakklandi með átta marka sigri á Villeurbanne, 34:26, á heimavelli. Grétar Ari var í miklum ham í marki Nice eins og stundum áður. Hann varði 15 skot, 39%.
Nice-liðið var með gott forskot í leiknum frá upphafi til enda og var m.a. fimm mörkum yfir í hálfleik, 17:12.
- Auglýsing -