Ísland verður á meðal nafna 32 þjóða í skálunum þegar dregið verður í riðla á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í Gautaborg í dag. Keppnin fer í upphafi fram í átta riðlum með fjórum liðum í hverjum riðli. Hafist verður handa við að draga í riðla upp úr klukkan 13.30 í Gautaborg þar sem sænska landsliðið verður með bækistöðvar á mótinu.
Heimsmeistaramótið fer fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð frá 29. nóvember til 17. desember þegar úrslitaleikurinn fer fram í Jyske Bank Boxen í Herning á Jótlandi.
Í riðlakeppni mótsins verður leikið í Gautaborg og Helsingborg í Svíþjóð, í Þrándheimi og Stavangri í Noregi og í Herning og Frederikshavn í Danmörku.
Ísland tekur þátt í annað sinn á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik eftir að hafa fengið annað af tveimur boðsætum sem stjórn Alþjóða handknattleikssambandið hafði yfir að ráða. Austurríki hreppti hitt boðsætið.
Íslenska landsliðið tók þátt í HM 2011 og hafnaði í 12. sæti af 24 þátttökuliðum. Síðan hefur þátttökuliðum HM verið fjölgað um átta.
Liðum þjóðanna 32ja hefur verið raðað niður í fjóra styrkleikaflokka sem dregið verður úr.
| 1. styrkleikafl. | 2. styrkleikafl. |
| Noregur | Slóvenía |
| Danmörk | Spánn |
| Svartfjallaland | Króatía |
| Frakkland | Suður Kórea |
| Svíþjóð | Ungverjaland |
| Holland | Rúmenía |
| Brasilía | Pólland |
| Þýskaland | Tékkland |
| 3. styrkleikafl. | 4. styrkleikafl. |
| Serbía | Kongó |
| Japan | Senegal |
| Úkraína | Paragvæ |
| Grænland | Íran |
| Argentína | Kasakstan |
| Angóla | Chile |
| Kína | Austurríki |
| Kamerún | Ísland |
Noregur vann til gullverðlauna á heimsmeistaramótinu sem fram fór á Spáni í desember 2021.
Þegar hefur verið raðað niður í nokkra riðla mótsins.
| A-riðill – Gautaborg | E-riðill – Herning |
| Svíþjóð | Danmörk |
| B-riðill – Helsingborg | F-riðill – Herning |
| Svartfjallaland | Þýskaland |
| C-riðill – Stavangur | G-riðill – Frederikshavn |
| Noregur | |
| Spánn | |
| D-riðill – Stavangur | H-riðill – Frederikshavn |
| Frakkland | Holland |



