Elvar Ásgeirsson var atkvæðamestur hjá Ribe-Esbjerg með sex mörk og fjórar stoðsendingar í tapleik gegn Mors-Thy, 34:30, á útivelli í gærkvöld. Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður, var í leikmannahópi Ribe-Esbjerg en kom ekkert inn á leikvöllinn.
Mors-Thy hafði sjö marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 18:11. Þetta var annar sigur Mors-Thy í röð í deildinni en áður hafði liðið ekki unnið frá 18. nóvember. Þetta var um leið þriðja tap Ribe-Esbjerg í síðustu fjórum leikjum og að meðtöldu jafntefli við Nordsjælland þá hefur liðið fengið þrjú stig úr síðustu fimm leikjum eftir að keppni hófst aftur í deildinni eftir Evrópumótið í Þýskalandi.
Ribe-Esbjerg er í sjöunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í karlaflokki og á þrjá leiki eftir áður en úrslitakeppnin hefst. Þrátt fyrir allt eru meiri líkur en minni að Ribe-Esbjerg verði á meðal átta efstu liða þegar upp verður staðið í vor og kræki í sæti í úrslitakeppni um danska meistaratitilinn.
Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.