Ívar Benediktsson skrifar frá Tíblisi, [email protected]
„Ekkert kom á óvart í leik Georgíumanna, eitthvað sem ég hafði ekki séð hjá þeim áður. Þeir spila mikið á sömu leikmönnum sem eru reyndar dúndúrgóðir en þeir verða að leika 95 prósent af tímanum, breiddin í hópnum er ekki mikil. Hinsvegar er mikið hjarta í leik Georgíumann, mikil barátta auk þess sem þeir eru villtir, óútreiknanlegir,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari spurður út andstæðinga íslenska landsliðsins á morgun kl. 14 í Tíblisi, landslið Georgíu, sem Ísland hefur aldrei mætt áður í leik A-landsliða karla.
Leikurinn er liður í annarri umferð undankeppni EM 2026. Íslenska landsliðið vann Bosníu í Laugardalshöll á miðvikudagskvöld, 32:26. Sama dag tapaði Georgíumenn fyrir Grikkjum, 27:26.
Villtir og ótútreiknanlegir
„Um leið og þeir eru villtir þá eru þeir einnig óagaðir í köflum. Við verðum að sjá til þess að þessi atriði snúist gegn þeim en ekki okkur. Ef þeim tekst að ráða ferðinni þá er Georgíumenn mjög hættulegir,“ sagði Snorri Steinn ennfremur en hann hefur grandskoðað viðureign Grikkja og Georgíumanna í Grikklandi á miðvikudagskvöldið.
Helsti leikmaður georgíska landsliðsins er örvhenta skyttan Girogi Tskhovrebadze sem einnig leikur með Gummersbach í Þýskalandi. Hann skoraði 11 mörk í 19 skotum gegn Grikkjum.
Kóngurinn í liðinu
„Hann er mjög skæður. Þeir sem hafa séð til hans í Bundesligunni geta margfaldað allt sem hann gerir með landsliðnu með fimm. Hann leyfir sér býsna mikið enda er hann kóngurinn í liðinu. Hann kemst upp með allt og gerir fyrir vikið allt það sem honum dettur í hug,“ sagði Snorri Steinn og undirstrikar að Tskhovrebadze sé ekki sá eini í liðinu.
Ólíkindatól í markinu
„Miðjumaður georgíska liðsins er mjög góður. Einnig línumaðurinn. Þeirra samvinna er mjög hættuleg. Auk þess er markmaðurinn, Zurab Tsintsadze, góður, en afar villtur, vægt til orða tekið,“ sagði Snorri Steinn og rifjaði upp þegar brunaði fram í hraðaupphlaupi og átti stoðsendingu í leik á EM í Þýskalandi í upphafi ársins. Atvikið er að finna hér fyrir neðan.
Georgia have done it they have claimed their first ever win at an EHF EURO!
— (Un)informed Handball Hour (@HandballHour) January 15, 2024
And look at this for a match winning play from Goalkeeper/Playmaker Tsintsadze! pic.twitter.com/Tf3McHeCVa
Margt sem þarf að varast
„Það er margt sem við verðum að vara okkur á í leik Georgíumanna. Þeir mega alls ekki fá að leika á sínum forsendum. Viltur leikur liðsins, sem jaðrar við agaleysi, getur valdið okkur vandræðum, ef þeir komast á bragðið og stýra ferðinni.
Á sama tíma verðum við bæta það ofan á það sem gekk vel gegn Bosníu og fækka þeim atriðum sem gengu illa. Fá meira flot á boltann, meiri hraða í sóknarleikinn. Einnig verður við að kveða niður þau vandræði sem fylgt hefur liðinu okkar á útivelli. Það á ekki að vera hækja fyrir okkur að þurfa að fara upp í flugvél og leika á útivelli,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik í samtali við handbolta.is.