- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eðli Íslendinga er að bregðast hratt við aðstæðum

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla. Mynd/DHB
- Auglýsing -

„Íslendingaeðlið í mér hefur kennt mér að bregðast hratt við aðstæðum og einbeita mér að því sem ég hef í höndunum hverju sinni,“ segir Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla í samtali við þýska fjölmiðla. Alfreð er að hefja undirbúning þýska landsliðsins fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í Egyptlandi 13. janúar. Áður en að mótinu kemur leikur þýska landsliðið við austurríska landsliðið í undankeppni EM.


„Hvernig sem öllu er botninn hvolft þá hlakka ég til mótsins og að vinna með landsliðinu eftir allt það sem á undan er gengið. Auðvitað mættu aðstæður vera betri en við munum gera það besta úr því sem komið er,“ sagði Alfreð ennfremur. Hann var ráðinn í starfið í mars en hefur síðan aðeins stýrt þýska landsliðinu í tveimur leikjum sem fram fóru í undankeppni EM í byrjun nóvember.

Aðrir eru sterkari

Átta sterkir leikmenn gefa ekki kost á sér í þýska landsliðið fyrir HM, bæði af persónulegum ástæðum og sökum meiðsla. Þar á meðal eru þrír frá gamla félagi Alfreðs, Kiel en það varð Evrópumeistari á þriðjudagskvöldið. „Eins og sakir standa þá er ekki raunhæft að stefna á verðlaun á HM. Um þessar mundir eru Danir, Spánverja, Króatar og Norðmenn með sterkari lið en við,“ segir Alfreð ennfremur.

Þýska landsliðið verður í riðli með landsliðum Ungverjalands, Úrúgvæ og Grænhöfðaeyja á HM. Alfreð segist hafa undir höndum upptökur af leikjum þessara landsliða sem hann hafi notað við leikgreiningar á síðustu vikum. Þýska landsliðið muni koma vel undirbúið til leiks miðað við aðstæður.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -