Efsta lið þýsku 1. deildarinnar, SC Magdeburg, átti fullt í fangi með að vinna botnlið Leipzig á heimavelli í dag í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Leikmenn Leipzig bitu hressilega frá sér í síðari hálfleik og voru ekki langt frá því að ná jafntefli. Magdeburg slapp með eins marks sigur, 29:28, eftir að hafa verið sex mörkum yfir í hálfleik, 18:12.
Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar, vann Stuttgart örugglega, 28:22, í Porsche-Arena í Stuttgart.
Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú af mörkum Gummersbach og Teitur Örn Einarsson tvö. Gummersbach er í sjötta sæti deildarinnar með 23 stig eftir 18 leiki, er þremur stigum fyrir ofan Rhein-Neckar Löwen sem vann HSV Hamburg fyrr í dag, 35:29.
Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk fyrir Magdeburg í sigrinum nauma á Leipzig. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fjögur mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Elvar Örn Jónsson skoraði tvisvar og var öflugur í vörninni, varði m.a. þrjú skot.
Blær Hinriksson skoraði ekki mark fyrir Leipzig í leiknum í dag.
Magdeburg hefur yfirburðastöðu í deildinni eins og sést á töflunni fyrir neðan auglýsinguna. Liðið hefur aðeins tapað einu stigi í 18 leikjum.
Staðan í þýsku 1. deildinni:



