Skjótt skipast veður í lofti hjá þýska handknattleiksliðinu Leipzig sem Blær Hinriksson leikur með. Stjórnendur félagsins ráku í dag Spánverjann Raul Alonso sem þjálfað hefur liðið síðustu fjóra mánuði. Alonso var kallaður til starfa hjá Leipzig í júlí frá Eurofarm Pelister eftir að Rúnari Sigtryggssyni var sagt upp í júní.
Frank Carstens, fyrrverandi þjálfari HSG Wetzlar, fær það vandasama verkefni að rífa liðið upp úr öldudalnum. Carstens varð að axla sín skinn hjá Wetzlar í vor.
Hvorki hefur gengið né rekið hjá Leipzig í þýsku 1. deildinni á leiktíðinni og rekur liðið lestina með aðeins tvö stig að loknum tveimur leikjum. Tvö jafntefli eru uppskeran og tíu tapleikir. Botninn tók úr að mati stjórnenda félagsins þegar lið þess tapaði fyrir GWD Minden um síðustu helgi.
Íþróttastjórinn fauk einnig
Stjórnendur félagsins létu ekki nægja að losa sig við Alonso þjálfara því Bastian Roscheck íþróttastjóri varð einnig að taka pokann sinn. Roscheck er sagður þurfa að súpa seyðið af því að hafa ekki náð að krækja í nægilega öfluga menn í stað Viggós Kristjánssonar og Luca Witzke sem farið hafa frá félaginu á síðasta ári.




