- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eftirvænting fyrir að flautað verður til leiks

Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari Stjörnunnar og leikmenn ráða ráðum sínum inni á leikvellinum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Það er mjög mikil eftirvænting hjá okkur að byrja enda rosalega langt síðan síðasti leikur var,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Stjörnunnar við handbolta.is í tilefni þess að í dag hefst keppni á ný í Olísdeild kvenna í handknattleik en keppni hefur legið niðri síðan 26. september af ástæðum sem flestum er kunnar. Stjarnan sækir Val heim í Origo-höllina á Hlíðarenda klukkan 13.30. Á sama tíma hefst einnig leikur HK og FH í Kórnum.


„Við byrjum á svakalega erfiðu prógrammi næstu vikuna. Fyrsti leikur er á móti ríkjandi Íslandsmeisturum Val. Annars er staðan á liðinu góð. Við höfum æft vel síðan við máttum hittast inn í sal og er góð stemning í hópnum,“ sagði Rakel Dögg.


Markvörður Stjörnunnar, Heiðrún Dís Magnúsdóttir, fékk höfuðhögg í leik KA/Þórs og Stjörnunnar eftir miðjan september. Rakel segir að Heiðrún Dögg hafi ekki jafnað sig að fullu en vonir standi til þess að með sama framhaldi hafi hún náð fullri heilsu á næstu vikum.


„Hjá okkur ríkir mikil eftirvænting að byrja mótið aftur eftir langa pásu,“ sagði Jakob Lárusson, þjálfari FH, við handbolta.is. FH-liðið fékk liðsstyrk meðan keppni og æfingar lágu niðri. Ragnheiður Tómasdóttir, sem var markahæsti leikmaður liðsins á síðasta keppnistímabili, kom heim frá námi í Slóvakíu vegna heimsfaraldursins. Hún, eins og aðrir leikmenn FH, verður klár í slaginn með FH þegar liðið mætir HK í dag.


Leikir fjórðu umferðar Olísdeildar kvenna í dag:
Origo-höllin: Valur – Stjarnan kl. 13.30.
Kórinn: HK – FH kl. 13.30.
Schenker-höllin: Haukar – KA/Þór kl. 16.
Framhús: Fram – ÍBV – frestað.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -