Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður í handknattleik og leikmaður Vendsyssel í Danmörku er á sínu þriðja keppnistímabili með liðinu. Eftir tvö ár með liðinu í 1. deild fluttist það upp í úrvalsdeild í vor eftir að keppnistímabilið fékk snubbóttan enda í Danmörku eins og víða annarsstaðar. Vendsyssel var í efsta sæti 1. deildar og hafði þá unnið 17 af 19 leikjum sínum, gert eitt jafntefli og aðeins beðið lægri hlut einu sinni.
Þungur róður til þessa
Fram til þessa hefur róðurinn verið þungur hjá Elínu Jónu og stöllum hennar. Liðið hefur aðeins náð í eitt stig í fyrstu sjö leikjum keppnistímabilsins. Hún segir mikinn mun vera á milli deilda. Hinsvegar komi ekki til greina að leggja árar í bát þótt á móti blási. Leikmenn Vendsyssel ætli sér að læra af hverjum leik og berjast fyrir sæti sínu enda fellur aðeins eitt lið beint í 1. deild af þeim 14 sem eiga sæti í úrvalsdeild. Liðin sem hafna í níunda til 13. sæti fara í umspil þar sem allt getur gerst.
„Segja má að munurinn sé svo mikill á milli úrvalsdeildar og 1. deildar að hægt sé að líkja við muninn á svörtu og hvítu Það má segja að við séum enn að ná áttum, komast upp á það styrkleikaþrep sem flest önnur lið deildarinnar eru á. Mér finnst það ganga ágætlega hjá okkur sem sést kannski best á því að okkur gengur sífellt betur að halda í við stærri liðin í deildinni þrátt fyrir að vera með yngri og ekki eins reynda leikmenn á þessu getustigi,“ segir Elín Jóna í samtali við handbolta.is.
Ekkert annað í spilunum
Hún bendir m.a. á að Vendsyssel hafi staðið lengi vel í bikarmeisturum Herning/Ikast á dögunum.
„Það var geggjaður leikur hjá okkur en vissulega þarf margt að smella saman hjá okkur til að standa stærri liðunum á sporði en við ætlum að halda áfram að reyna. Það er ekkert annað í spilunum hjá okkur en að halda áfram að vinna á þeirri braut að bæta okkur með hverjum leiknum sem líður og um leið halda uppi móralnum í hópnum,“ segir Elín Jóna og bendir á að á síðasta tímabili hafi liðið verið í gjörólíkri stöðu í deildinni fyrir neðan. Það reyni á að takast á við þann styrkleikamun sem sé á milli deildanna.
Gríðarlega viðbrigði
„Það eru mikil viðbrigði að koma úr keppnistímabili eins og fyrra þegar við unnum nánast alla leiki yfir í það að tapa svo að segja öllum leikjum þrátt fyrir að allir leggi sig fullkomlega fram. Þetta er sá veruleiki sem við búum við og vinnum út frá.“
Elín Jóna er á sínu þriðja keppnistímabili með Vendsyssel sem er frekar ungt félag stofnað fyrir níu árum og með bækistöðvar á Norður-Jótlandi og tilheyri Frederikshavn Kommune fyrir þá sem er gjörkunnugir á þessum slóðum. Vendsyssel byrjaði í C-deild en vann sig upp í B-deild, 1.deild, tveimur árum síðar þar sem það hefur verið þangað til í vor að það fluttist upp í deild þeirra bestu. Önnur íslensk handknattleikskona leikur um þessar mundir með Vendsyssel, Steinunn Hansdóttir. Hún kom til liðs við Vensdyssel í sumar frá Horsens.
Er í kennaranámi
Elín Jóna hefur komið sér fyrir í Álaborg þar sem hún býr með dönskum kærasta sínum. Auk handboltans leggur Elín Jóna stund á kennaranám við Háskóla Íslands í fjarnámi.
„Vensdsyssel er ekki að fullu atvinnumannalið. Hluti leikmanna liðsins stundar nám eða hefðbundna atvinnu samhliða boltanum. Æfingatímarnir eru þar af leiðandi að mörgu leyti svipaðir og heima á Íslandi. Við mætum tvo daga í viku á æfingar klukkan sex á morgnanna og fjórum sinnum yfir vikuna frá fimm til sjö síðdegis. Til viðbótar er að jafnaði einn leikur í deildinni á viku. Þetta hentar mér vel með náminu. Ég get sinnt því vel á milli æfinga og leikja. Ég kann vel við mig hérna, finnst umhverfið frábært sem ég er í,“ segir Elín Jóna sem ung kom fram sem efnilegur markvörður með Gróttu en fór yfir í Hauka þegar ljóst var að minna yrði um tækifæri með uppeldisfélaginu þar sem fyrir voru í fleti sterkir markverðir.
Geggjað að vera í úrvalsdeildinni
Elín Jóna segir það draumi líkast fyrir sig sem hefur metnað fyrir handboltanum að leika í dönsku úrvalsdeildinni. Sum félögin séu á meðal þeirra fremstu í Evrópu og hafi landsliðsmenn í nær öllum stöðum. M.a. má nefnda Odense og Esbjerg sem leika í Meistaradeild Evrópu, fyrrnefnt lið Herning-Ikast, Köbenhavn og fleiri.
„Það er geggjað að vera í þessari deild. Maður mætir landsliðsmönnum í hverjum einasta leik, ef ekki dönskum þá einhverjum sem leika með landsliðum annarra Evrópuþjóða. Þetta er frábær undirbúningur fyrir mig og góð reynsla sem nýtist mér tvímælalaust með landsliðinu.
Um síðustu helgi mætti ég stöllu minni úr landsliðinu, Theu [Imani Stuludóttur] þegar við lékum við Århus United. Hún var mjög góð á móti okkur,“ segir Elín Jóna en Thea gekk til liðs við Árósarliðið í sumar frá Oppsal í Noregi.
Byrjaði á bekknum
“Thea er jafnt og þétt að koma til baka eftir meiðsli,” segir Elín Jóna sem sjálf var lasin þegar leikurinn fór fram og tók þess vegna ekki þátt í honum frá byrjun. „Vegna veikindanna byrjaði ég ekki inná sem var skellur,” segir Elín Jóna sem hafði ekki að fullu jafnað sig þegar hún ræddi við handbolta.is í gær. „Ég er ekki með covid, það búið að tékka á því.“
Má ekki æfa í tvær vikur
Veikindi þessa dagana er ekki það eina sem plagar Elínu Jónu. Hún hefur verið slæm í mjöðminni síðan á undirbúningstímabilinu og gengið illa að fá sig góða. Nýverið fór Elín Jóna í ítarlega skoðun. Eftir skoðun var ákveðið að Elín Jóna fái sprautu í mjöðmina og átti það að eiga sér stað í dag. Það mun þýða að hún verður frá æfingum í tvær vikur.
„Það vill svo vel til að næsti leikur okkar verður ekki fyrr en 17. október, þremur dögum eftir að ég má byrja að æfa aftur. Þá mætum við Köbenhavn á okkar heimavelli. Ég verð bara að loka augunum á næstunni og ímynda mér skotin og búa mig þannig undir leikinn,“ segir Elín Jóna, jafnt í gamni sem alvöru því hún segist notast nokkuð við slíka hugarþjálfun og þykir hún gefast vel.
„Ég nota þetta mikið fyrir leiki, það er að reyna að sjá skot andstæðinganna fyrir mér eftir að hafa farið yfir upptökur með leik þeirra. Mér finnst þessi aðferð góð og trúi því að hún komi að góðum notum. Það gefur mér að minnsta kosti mjög mikið við undirbúning leikja.“
Með tveggja ára samning
Elín Jóna skrifaði undir tveggja ára samning við Vendsyssel fyrir þetta keppnistímabil. Hún segist ekkert vera að velta fyrir sér að breyta til en útilokar þó ekkert í þeim efnum. „Eins og staðan er núna þá erum við bara með eitt stig og ljóst að við þurfum að safna fleiri stigum ef við eigum að forðast fall í vor. Ef við föllum þá getur verið að ég verði að skoða aðra kosti ef ég vil leika áfram í úrvalsdeildinni. Ég er með tveggja ára samning hér hjá Vensdsyssel og hef ekki hugann við annað.“
Tók rétt skref
„Ég er í ágætum málum í Danmörku. Ég legg áherslu á að ná mér í mjöðminni og halda því næst áfram að æfa eins vel og ég get svo ég verði enn betri markvörður en ég er. Ég er ánægð með það skref sem ég tók þegar ég fór til Vendsyssel á sínum tíma. Mér líður mjög vel,“ segir landsliðsmarkvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir hress þrátt fyrir kvefskít og mjaðmaeymsli.