- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ég er orðlaus og stoltur“

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals við hliðarlínu í leiknum í Baia Mare. Ljósmynd/Dragomir Ovidiu
- Auglýsing -

„Ég er orðlaus og stoltur,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals í samtali við handbolta.is rétt eftir að ljóst varð að Valsliðið leikur til úrslita í Evrópubikarkeppninni í handknattleik karla í næst mánuði. Valur vann Baia Mare í síðari undanúrslitaleiknum, 30:24, í Rúmeníu í dag og samanlagt með 14 marka mun, 66:52. Valur mætir Olympiacos í úrslitaleikjunum en það mun skýrast á þriðjudaginn hvort fyrri eða síðari úrslitaleikurinn verður hér á landi.

Spennufall í hálfleik

„Segja má að það hafi orðið spennufall strax í hálfleik því þá vorum við komnir með 17 marka forskot. Við þurftum bara að vera faglegir og fínir í síðari hálfleik. Tilfinningin var mjög skrítin í hálfleik,“ sagði Óskar Bjarni en staðan var 17:8 Val í vil í hálfleik.

Óskar Bjarni hefur stýrt liði Vals til sigurs í öllum 12 Evrópuleikjunum á tímabilinu.

Frábær vörn og markvarsla

„Annars var þetta frábær sigur hjá okkur. Markvarslan og vörnin stórkostleg í fyrri hálfleik. Hraðinn var mikill og við gerðum bara alveg út um þetta strax,“ sagði Óskar Bjarni og bætti við:

„Ég fann það bara á mönnum í gær og í dag að hlutirnir myndu ganga upp hjá okkur. Maður getur aldrei verið viss um að vinna en ég fann að við myndum klára þetta vel og sú varð heldur betur raunin.“

Slegnir út af laginu

„Við byrjuðum mjög vel. Vorum komnir í 7:3 eftir 10 mínútur og þá var eins og leikmenn Baia Mare væru slegnir út af laginu. Við áttum von á að þeir myndu leika fastar en í fyrri leiknum. Sú varð ekki raunin. Þeir fóru í hina áttina, urðu passívari og ætluðu að treysta á markvörsluna. Sú leikaðferð gekk ekki upp hjá þeim,“ sagði Óskar Bjarni.

Góðir dómarar

Ante Mikelic og Petar Paradina dómarar leiksins frá Króatíu voru góðir, mjög faglegir. „Strax í upphafi sá ég að dómgæslan yrði fín. Þeir tóku jafnt á leikmönnum Baia Mare og okkur strax í upphafi,“ sagði Óskar Bjarni sem var þjálfari Vals í undanúrslitaleiknum við Turda 2017 ytra þegar dómararnir snerust vægast sagt á sveif með Turdaliðinu. Af fenginni reynslu báru Valsmenn kvíðboga fyrir dómgæslunni. Sá ótti reyndist ástæðulaus þegar á hólminn var komið.

Rífandi stemning til leiksloka

Mikil stemning var í uppseldri keppnishöllinni í Baia Mare frá upphafi til enda, rúmlega 2.000 manns. „Ég reiknaði með þeir færu heim í hálfleik. Sú varð ekki raunin. Áhorfendur héldu áfram með miklum hávaða allt til enda þótt leikurinn væri löngu tapaður og öll sund lokuð. Maður heyrði ekki mannsins mál. En það er í góðu lagi,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals þjálfari Vals í sjöunda himni eftir leikinn í Baia Mare í dag þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -