- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég er ótrúlega stolt af liðinu

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Til að byrja með langar mig bara að segja hvað ég er ótrúlega stolt af liðinu. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og við erum ótrúlega samstilltur og góður hópur. Ég er bara mjög glöð og þakklát fyrir að vera með hlutverk í þessum frábæra hóp þrátt fyrir að vera ennþá að glíma við meiðsli,“ sagði Sunna Jónsdóttir, leikmaður ÍBV, við handbolta.is í dag eftir sigur ÍBV liðsins á deildarmeisturum KA/Þórs í fyrst leik liðanna í undanúrslitum Olísdeildarinnar í handknattleik á Akureyri í dag, 27:26.

Hátt spennustig í upphafi

„Ég held að spennustigið hafi verið fullhátt hjá okkur til að byrja með en við misstum ekki trúnna og héldum áfram með okkar leikjaáætlun. Við vorum búnar að æfa og tala um að plúsa á Rut [Arnfjörð Jónsdóttir] ef við værum í vandræðum og sú vörn hefur oft reynst okkur vel og í dag virkaði það mjög vel og kom mikið hökt á þeirra uppstillta sóknarleik, og eins þegar þær fóru í 7/6,“ sagði Sunna sem taldi að sterk vörn ÍBV-liðsins og góð markvarsla Marta Wawrzynkowska hafi vegið þungt við að koma ÍBV inn í leikinn en liðið átti undir högg að sækja allan fyrri hálfleik og framan af þeim síðari.

„Hrafnhildur Hanna [Þrastardóttir] dró svo vagninn fyrir okkur sóknarlega. Hún er aldeilis búin að vera okkur mikilvæg í úrslitakeppnisleikjunum. Ásta Björt [Júlíusdóttir] tók líka mikilvægar ákvarðanir,“ sagði Sunna sem gerir sér fyllilega grein fyrir að kálið er ekki sopið. Næsta viðureign verður á miðvikudaginn í Vestmannaeyjum og þangað koma leikmenn KA/Þórs eins og grenjandi ljón til leiks.

Margt má bæta

„Við þurfum samt að fara vel yfir þennan leik því það er klárlega margt sem við getum lagað og gert betur fyrir næsta leik í Eyjum. En ótrúlega gott og mikilvægt fyrir okkur að klára þennan leik hér í dag á erfiðum útivelli,“ sagði Sunna sem vildi að lokum koma á framfæri þakklæti til öflugs hóps stuðningsmanna ÍBV sem fylgdi liðinu norður í dag.

Okkar áttundi maður

„Að lokum langar mig að nefna að stuðningurinn sem við fengum með okkur í dag var gjörsamlega magnaður. Áhorfendur væri klárlega okkar áttundi maður og hjálpaði okkur yfir erfiðustu hjallana. Þvílík samstaða og barátta. Alvöru Eyjaandi í þessu og gjörsamlega geggjað að spila í úrslitakeppni með þetta fólk á bak við sig,“ sagði Sunna Jónsdóttir, leikmaður ÍBV við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -