„Þeir höfðu haft áhuga á að fá mig til starfa um nokkurn tíma en af því varð ekki fyrr en núna,“ segir handknattleiksþjálfarinn Aron Kristjánson í samtali við handbolta.is en hann hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Kúveit í handknattleik til tveggja ára. Aron hætti þjálfun landsliðs Barein eftir HM í janúar eftir nærri sjö ára sleitulaust starf.
„Eftir HM langaði mig að breyta til eftir veruna hjá Barein. Þá var áhugi af hálfu Kúveita. Síðan hefur tekið smá tíma að ganga frá þessu,“ sagði Aron ennfremur en tilkynnt var um ráðningu hans til Kúveit seint í gærkvöld að íslenskum tíma á Instagram-síðu handknattleikssambands Kúveit.
Öflug deildarkeppni
Aron segir talsverðan áhuga vera fyrir handbolta í Kúveit. Þar er nokkuð öflug deildarkeppni en auk heimamanna leikur hópur erlendra leikmanna með félagsliðum í landinu sem auka gæði deildarkeppninnar til muna.
Mikill metnaður
„Landslið Kúveit hefur verið í uppbyggingu síðustu árin. Leikmenn eru á góðum aldri og möguleikar á að sækja fram að mínu mati. Svo er mikill metnaður til þess að leggja talsvert undir og að stíga framfaraskref auk þess sem aðstaða er góð. Menn vilja komast í hóp allra fremstu liðanna í Asíu,“ segir Aron sem er fullur tilhlökkunnar að takast á við nýtt verkefni.
Þjálfaraferill Arons:
2004–2007: Skjern Håndbold.
2007–2010: Haukar.
2010–2011: TSV Hannover-Burgdorf.
2011–2013: Haukar.
2012–2016: Íslenska landsliðið.
2014–2015: KIF Kolding-København.
2016–2017: Aalborg Håndbold.
2018–2019 / 2020-2025: Landslið Barein.
2020–2022: Haukar.
2025–????: Landslið Kúveit.
Voru með á HM 2025
Landslið Kúveit hafnaði í fjórða sæti í Asíukeppni landsliða í janúar á síðasta ári og vann sér inn sæti á HM sem fram fór í janúar. Á HM hafnaði landslið Kúveit í 27. sæti.
Besti árangur Kúveita á síðari árum er 3. sætið á Asíuleikunum sem fram fóru í Kína haustið 2023. Kom liðið mörgum á óvart á mótinu.
Fyrstu leikir í byrjun maí
„Ég er spenntur fyrir þessu verkefni,“ segir Aron sem fer til Kúveit í apríl til þess að búa liðið undir fyrstu leikina sem verða á heimavelli í byrjun maí. „Fyrsta æfingalotan hefst 20. apríl fyrir Arabíumót landsliða sem fram fer í Kúveit í byrjun maí. Næsta stóra verkefni þar á eftir verður Asíumótið í janúar á næsta ári,“ segir Aron Kristjánsson nýráðinn landsliðsþjálfari Kúveit í samtali við handbolti.is.