- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ég hlakka til að vinna aftur með Gumma“

Alexander Petersson hefur ákveðið að láta gott heita sem atvinnumaður í handknattleik. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Ég hlakka til að vinna aftur með Gumma á næsta tímabili,“ sagði Alexander Petersson, landsliðsmaður í handknattleik og núverandi liðsmaður Flensburg í Þýskalandi þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í vikunni og spurði hann út í nýgerðan samning við þýska liðið MT Melsungen sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar. Alexander skrifaði undir samning við félagið á dögunum til eins árs.

„Það verður íslensk vörn hjá Melsungen á næsta tímabili með mig, Elvar og Arnar. Það verður bara spennandi,“ sagði Alexander sem leikur með Flensburg út keppnistímabilið en hann gerði skammtíma samning við félagið í lok janúar þegar það vantar liðsstyrk í kjölfar þess að margir leikmenn liðsins voru á meiðslalista.

„Ég mjög ánægður og þakklátur fyrir að fá samning hjá svona góðu liði eins og Melsungen, liði sem getur komið á óvart á næsta keppnistímabili,“ sagði Alexander sem hafði heyrt frá öðrum félögum í deildinni áður en hann gerði samning við Melsungen.

„Liðin buðu ekkert sérstakt. Ég er hinsvegar reiðbúinn til að gefa allt sem ég get í leikinn og langaði ekki að vera með liðum bara til þess að vera með. Ég hef ennþá löngum til þess að berjast í fremstu röð og vinna, ná árangri.“

Fann strax fyrir trausti

„Þegar Gummi hafði samband þá hafði ég strax áhuga á að koma til Melsungen því ég fann strax að hann sýndi mér traust. Það er gott að koma inn í nýtt lið þar sem maður veit að maður fær hlutverk og traust. Við Gummi þekkjumst vel. Hann veit hvað ég get og ég þekki vel hvernig hann vill spila. Milli okkar ríkir traust. Ég vil borga til baka til hans og félagsins með því að standa mig vel á næsta keppnistímabili,“ segir Alexander.

Síðasta tímabilið í efstu deild

Alexander segist reikna með að næsta keppnistímabil verði það síðasta hjá sér, a.m.k. í efstu deild. Alexander verður 41 árs gamall í júlí. „Ég verð að gæta mín á að fara ekk framúr mér. Ég er æstur í að æfa sem best og mest. Ég er ekki 25 ára gamall lengur og vöðvarnir ekki eins viljugir og þeir voru þótt hugurinn sé enn á sama stað. Ég er aðeins farinn að læra á sjálfan mig eftir 40 ár,“ segir Alexander og hlær um leið og hann bætir við. „Stundum má ég æfa aðeins minna og vera klókari.“

Vonandi einn landsleikur eftir

Spurður hvort hann hafi leikið sinn síðasta landsleik sagðist Alexander vonast til að svo sé ekki. Honum gefist vonandi kostur á að kveðja landsliðið með einum leik við tækifæri. „Ég verða hinsvegar ekki með á fleiri stórmótum. Mitt síðast stórmót var HM í Egyptaland í janúar. Það er nóg af leikmönnum til að leysa mig af í landsliðinu, ekki síst örvhentum. Ég held að það sé rétt að ég taki ekki lengur pláss í landsliðinu frá yngri leikmönnum,“ sagði Alexander.

Væri gaman að enda á titli

„Nú hlakka ég til að klára tímabilið með Flensburg og mun gefa allt sem ég á í það. Við eigum tíu leiki eftir í deildinni sem verða leiknir á næstu fimm vikum. Það væri geggjað að vinna titilinn í lokin í vor,“ sagði Alexander Petersson, landsliðsmaður og leikmaður Flensburg sem er í harðri keppni við Kiel um meistaratitilinn í Þýskalandi eins og stundum áður. 

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -