- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég hlakka til leikjanna

Alexander Petersson er inn reynslumesti Íslendingurinn sem leikið hefur í Þýskalandi. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Nú erum við að komast í keppni eins og á EM þar sem hver andstæðingur er sterkur og leikur handknattleik sem maður þekkir betur,“ sagði Alexander Petersson, landsliðsmaður í handknattleik þegar handbolti.is hitti hann að máli við hótel íslenska landsliðsins í úthverfi Kaíró í morgun áður en íslenska landsliðið flutti sig um set innan þessarar víðfeðmu og fjölmennu borgar.


Framundan eru þrír leikir hjá Alexander og samherjum í landsliðinu, við Sviss klukkan 14.30 á morgun og við Frakka og Norðmenn á föstudag og á sunnudag í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins. „Ég hlakka til þeirra,“ sagði Alexander. „Dagurinn í dag fer í að skipta um hótel, jafna okkur eftir gærkvöldið og leggja drög að næsta leik meðal annars með æfingu seinni partinn,“ sagði Alexander ennfremur.

„Mér líður vel fyrir utan að mér gekk illa að sofa í nótt. Ég hef spilað svo lítið á mótinu að ég er ekkert þreyttur. Líkamlega er ég ferskur,“ sagði hinn fertugi handknattleikskappi sem fyrst lék með landsliðinu á HM fyrir 16 árum.


Alexander segir það vera gaman að fylgjast með yngri strákunum í liðinu koma af krafti til leiks og inn í mótið. „Ég þarf þess vegna ekki að gera eins mikið. Ég leyfi þeim bara að taka við hlutverkinu og hefja af alvöru ferilinn. En ég er alltaf tilbúinn að taka við ef menn vilja,“ sagði Alexander léttur í bragði.

Schmid er hræddur við Ými

Framundan er viðureign við Sviss þar sem samherji Alexanders og Ýmis Arnar Gíslasonar hjá Rhein-Neckar Löwen, Andy Schmid, er allt í öllu. Alexander segir tilhlökkun ríkja að mæta Schmid. „Hann er aðalmaðurinn, sannkallaður Michael Jordan þeirra Svisslendinga. Það er erfitt að stöðva hann en ég er viss um að hann er hræddur við Ými. Hann er það að minnsta kosti á æfingum. Hann veit að leikurinn verður ekki auðveldur fyrir hann gegn Ými,“ sagði Alexander Petersson hress og kátur í morgun þrátt fyrir stuttan svefn í nótt.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -