„Við erum sáttir við að hafa unnið leikinn og að allir komust meiðslalausir frá leiknum. Dagurinn fer síðan í búa okkur undir næsta leik gegn Kúbu,“ segir Viggó Kristjánsson einn öflugasti sóknarmaður íslenska landsliðsins í leiknum við Grænhöfðaeyjar í 1. umferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í gær.
„Við getum tekið fyrri hálfleikinn út úr leiknum í gær og reynt að gera eins á morgun. Mæta klárir til leiks en að sama skapi leika betri síðari hálfleik á morgun. Fyrst og fremst verðum við að spila fínan leik, vinna og komast meiðslalausir áfram í næsta leik riðilsins sem mun miklu máli skipta,“ segir Viggó en viðureign Íslands og Kúbu á morgun hefst klukkan 19.30 eins og viðureignin við Grænhöfðaeyjar í gær.
Viggó segist ekki vita mikið um kúbverska liðið enda hefur það lítið sem ekkert leikið í Evrópu svo árum skiptir. „Maður þekkir betur þá kúbversku leikmenn sem leika fyrir aðrar þjóðir í Evrópu. En fyrirfram þá reikna ég bara með svipuðum leik og í gær,“ segir Viggó Kristjánsson yfirvegaður að vanda.
Lengra viðtal við Viggó er að finna ofar í þessari grein.
Landslið Íslands á HM 2025 – strákarnir okkar